Áhersluatriði í meðferð

Hugræn atferlismeðferð

Hugræn atferlismeðferð eða HAM er gagnreynt meðferðarform sem hefur verið ítarlega rannsakað. Mælt er með aðferðum HAM þegar um er að ræða einkenni kvíða og þunglyndis. Unnið er með samspil hugsana, tilfinninga, líkamlegs ástands og atferlis (hegðunar). Sérstaklega er skoðað hvernig hegðun og hugsanir hafa áhrif á líkamlegt ástand og líðan.

Núvitund

Núvitund er leið að því marki að stilla hugann og að dvelja í núinu frekar en að dvelja við minningar fortíðar eða kvíða framtíðinni. Núvitund byggir bæði á æfingum og eins á hugarfari daglegs lífs. Samkennd er mikilvægur þáttur núvitundar; samkennd vegna eigin tilfinningalegrar upplifunar og annarra.

ACT (sáttar- og atferlismeðferð)

Aðferðir byggðar á ACT sem á ensku kallast Acceptance and Commitment Therapy eru stundum notaðar í meðferðinni til viðbótar við HAM aðferðir.

Greiningarviðtal og sálfræðitímar

Fyrsta viðtal er greiningarviðtal þar sem farið er yfir ástæður þess að fólk leitar til sálfræðings. Skoðuð er fyrri saga vanda og hversu fjölþættur vandinn er. Gerð er áætlun um framhaldið og næstu skref. Tímar eru yfirleitt 45-50 mínútur að lengd.

Þunglyndi og kvíði

Einkenni þunglyndis geta verið depurð, áhugaleysi, sjálfsgagnrýni, pirringur, svartsýni, vonleysi, orkuleysi og minnkuð virkni.
Einkenni kvíða geta verið hræðsla, áhyggjur, vöðvaspenna, sviti, hröð öndun, höfuðverkur, svimi, hamfarahugsun og neikvæð sjálfsmynd.

MI (áhugahvetjandi samtal)

Stuðst er við nálganir Motivational Interviewing sem á íslensku er kallað áhugahvetjandi samtal.

Áfengis og vímuefnavandi

Áfengis- og vímuefnanotkun getur aukið á einkenni þunglyndis og kvíða. Því er mikilvægt að skoða neysluhegðun; tíðni neyslu og magn efna. Unnið er með áfengis- og vímuefnavanda með aðferðum hugrænnar atferlismeðferðar í bland við félagslega styrkingu og sjálfsmyndarvinnu. Horft er til hugmyndafræði skaðaminnkunar og skaðleg mynstur skoðuð.

Sjálfsmynd og kynhneigð

Ýmis vandi getur komið upp hjá þeim sem koma út úr skápnum sem sam- eða tvíkynhneigðir. Í sumum tilfellum er um að ræða vanda tengdan sjálfsmynd en einnig geta aðstæður verið truflandi og erfiðar. Hvort tveggja getur aukið á einkenni kvíða og þunglyndis.

Áfallavinna

Afleiðingar áfalla geta verið mismunandi og geta haft áhrif á ýmsum sviðum. Mikilvægt getur verið að skoða og vinna með áfallasögu þegar um er að ræða vanda vegna áfengis- og vímuefnaneyslu. Sérstaklega er mikilvægt að skoða þátt flókinnar áfallasögu (Complex Trauma).